Ég elska Biblíuna!

Ég er manneskja sem hef í mörgum hlutum syndgað, eins og Biblían segir, þegar að við mennirnir gerum eitthvað rangt. En Biblíunni þarf ekki að breyta fyrir mig og slíkt hvarflaði aldrei að mér, þegar ég var ekki á þeim vegi sem að ég er nú. Því eina sem að þurfti að breyta, til að mér liði betur og yrði sátt, var ég sjálf.

Til eru margar andlegar bækur, (ég hef lesið þær nokkrar) en ég veit ekki til að menn hafi fundið sig knúna til að breyta þeim og færa til nútímans og tíðarandans. Hvers vegna skildi það nú vera? Er það kannski svo að Biblían er meira en bók, að hún er Guðs heilaga Orð? Hvers vegna finna menn sig knúna til að breyta henni, er það vegna þess að þeir eru eitthvað ósáttir við sjálfa sig? Hver er hin raunverulega ástæða?

 

Í Biblíunni stendur að Orð Guðs sé kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði. Það er sem sé ekki alltaf þægilegt og á ekki heldur að vera það.

En og aftur, mitt er valið, þitt er valið, hverju við förum eftir og trúum, en Bók bókanna, Biblían, á að vera óbreytt!


VISKAN OG HEIMSKAN!

 

 Í hæðum himins á Viskan sæti

og horfir á Heiminn,

þar Heimskan hleypur um huga manna.

 

Að afla hygginda er hamyngjuleiðin og 

að leita Guðs er mesta Viskan

segir í Bók Bókanna!

 

Á hvaða vegi er ég núna?

Á hvaða röddu hlusta ég?

Er hjarta mitt opið fyrir Visku Drottins,

eða er dramb mitt búið að bjóða Heimskunni heim?

 

Veit ég allt, get ég allt, á ég skilið allt það besta,

þarf ég að fá það sem hugur minn girnist,

eða þarf ég að opna eyru mín og augu og sjá

minn minnsta bróður?

 

G.Helga Ingadóttir!

 

 


Nú fer að líða að því að við lokum í Eldstó Café .......

Þetta hefur verið gjöfult og gott sumar, en ég hlakka til að fá hvíldina og komast í að vinna í leirnum, með Þór. Við þurfum að taka okkur ferð á hendur og ná í leir inn í Búðardal og Hekluvikur, sem að er okkur nær, til að nota í glerunga.

Við munum þó hafa þann möguleika fyrir minni hópa, að koma í Eldstó í vetur, ef að áhugi er fyrir því.

 

Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum sem að komið hafa við hjá okkur og notið veitinga og góða veðursins, sem að við nutum í sumar. Ekki verður opið í september, eins og ég var að spá í, þar sem að ferðamannatraffíkin hefur minnkað til muna!

            Ostakaka                       Risavafla


Þetta er sorglegra en orð geta tjáð!

Á hvað leið erum við. Ég er alin upp í miðbæ Reykjavíkur og fram eftir öllum aldri var mér óhætt að ganga um götur borgarinnar, örugg með mig, óhrædd, sama á hvað tíma sólarhringsins það var. En nú er öldin önnur, menn eru barðir, stungnir, eða bara skotnir um hábjartan dag, í Borginni sem að ól mig og annaðist.

Ég finn til með öllum sem að hlut eiga að máli, aðstandendum hins látna og gerandanum, sem ekki er fundinn, en þarf að lifa með því að hafa tekið líf annars manns. Hvað rak hann til þessa illvirkis, þvílíkt myrkur hefur heltekið sál hans, óafturkallanleg staðreynd, maður liggur í valnum.

Ég bið þess að Drottinn Jesús megi græða og hugga alla þá sem sárt eiga um að binda vegna þessa atburðar og lækna hjartasár.


mbl.is Maðurinn sem varð fyrir skotárás í Reykjavík er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er löngu kominn svefntími fyrir mig -

en ég er aðeins að fara yfir svæðið hjá bloggvinunum mínu og reyna að kúpla mig frá vinnunni! Allt er á fullu hjá okkur í Eldstó Café og Þór er líka í óða önn við að renna bolla, skálar og fl. nytsamlegt og fagurt.

Sko, það er ekki auðvelt að komast úr vinnugírnum, en svona er þetta bara á sumrin! Ég bíð því bara góða nótt og bið Guð um að blessa ykkur öll, kæru bloggvinir!


Allt snýst um Eldstó Café á sumrin!

 

Sól á kaffihúsinu.jpg fyrir blogg Eldsto Cafe in Hvolsvollur In fromt of Eldsto Cafe 2006 juni

Það snýst allt um vinnuna og lítið annað kemst að á sumrin, en engu síður er þetta gefandi. Að vera skapandi og frjór í hugsun, er nauðsynlegt í svona "busnes" og það á vel við mig. 

Margir hafa komið til okkar síðan ég opnaði um Hvítasunnuna, alls kona fólk hefur ratað inn í Eldstó Café og fjörugar umræðu átt sér stað. Mikið hefur verið rætt um listir, bæði myndlist, leirlist og tónlist.Sumir gestanna vilja gjarnan fá að ræða málin við gestgjafann, en aðrir vilja meira næði. Flestum ber þó saman um að það sé notalegt og heimilislegt í Eldstó.

Í dag kom ungt fólk sem að hefur verið að túra og spila hér á Íslandi og flytur franska kabarett tónlist.  Metro Bohema (heitir grúppan) er samansett af kontrabassa, fiðlu, gítar og harmonikku og að sjálfsögðu syngja þau líka. Harmonikku leikarinn var farin til síns heimalands, en restin af Bandinu kom í Eldstó Café að fá sér hressingu.  Við tókum á tal saman, þau skoðuðu og versluðu leir og fljótlega barst í tal tónlistin. Ég fékk þau til að ná í CD disk út í bíl sem að þau áttu með sér og varð mjög hrifin af því sem að ég heyrði. Þessi tónlist er gleðigjafi og hrífur mann auðveldlega með sér. Einhvern vegin fór svo að ég söng fyrir þau Vísur Vatnsenda-Rósu (þjóðleg að sjálfsögðu), svona í þakkarskyni og allir voru mjög glaðir með þann gjörning. Við skiptumst á e-mailum og hver veit nema þau komi og spili í Eldstó Café að ári liðnu. Gaman af því og já, ég keypti diskinn með þeim!

Talandi um að koma og spila í Eldstó Café. Mig langar mikið til að vera með tónlistarflutning, eða svona uppákomu í Eldstó Café, en þar sem að við erum ekki Baugur kompaní, þá höfum við ekki bolmagn til að greiða tónlistarmönnum fyrir það að koma og spila, úr eigin vasa. Og það er að sjóða yfir í kollinum á mér, því að ég er að reyna að fá einhverja splendet hugmynd um hvað sé hægt að gera, til að allir fái eitthvað fyrir sinn snúð. Tónlist er lífið, þ.e. tónlistin gefur svo mikið og fyllir mann af upplifunum, bæði sorg og gleði, en það að geta fundið til, er að vera til.

Ef einhver getur hjálpað mér í þessari hugmyndasmíð, þá er það vel þegið.

En - lifið heil og Guð blessi ykkur öll, sem að komið við á síðunni minni. Eins gott að vera rétt tengd og þá meina ég Guði sínum, og rétt hjá ykkur, því ekki að biðja hann um góða hugmynd. En Guð notar líka fólk!

  


Er að pústa eftir að hafa haft opið síðan um Hvítasunnuna!

Það hefur verið töluverð traffík í Eldstó Café  síðan ég opnaði og nú er smá pústdagur. Ég hef lokað á mánudögum til að hvílast pínulítið og útrétta. www.eldsto.is

Ég er mjög þakklát fyrir að vera komin á kortið, eða þannig og ætla að reyna að standa mig í sumar, taka vel á móti fólki og vera með nýungar í veitingum. Ég stefni á að bæta við rétti dagsins í hádeginu, þegar fram líður í júní mánuð, en það verður auglýst síðar.

Þetta er skemmtilegur tími, mikill erill og ekkert múður! Ég ætla að reyna að njóta þess og gera mitt besta, enga sjálfsvorkunn, þó að þreytan sé stundum mikil. Þetta er uppskeru tími og tími til að gleðjast.

Í höfðinu á mér er allt á fullu, við að skipuleggja og hugsa upp HVAÐ SVO! Mig langar til að halda tónleika í Eldstó Café, en staðurinn er svo lítill, að það yrði að halda þá úti og þá er það veðurspáin sem að ræður. Marga góða tónlistamenn á ég að vinum, sem að eru tilbúnir að kom og spila, sumir eru lands-þekktir. Eins langar mig sjálfa til að syngja eitthvað, helst svona country-bluse stemmu og eða smá jazz. eitthvað verður soðið saman, því lofa ég! Nánar auglýst síðar!

 

  Eldsto Cafe lovely Eldsto Cafe in Hvolsvollur In fromt of Eldsto Cafe 2006 juni

 


Er að vinna að OPNUN um Hvítasunnuna!

Ég er á haus við undirbúning að opnun Eldstó Café, Smíða, breyta, taka til, panta inn og HUGSA! Hvernig get ég bætt mig frá því á síðasta ári, alltaf að læra eitthvað nýtt. Hvernig get ég sem best mætt kúnnanum og hvernig á ég að markaðssetja mig, án þess að fara á hausinn!

 

En það er mikill hugur í mér, ég hlakka virkilega til núna og vonast eftir góðum viðskiptum. Þetta litla sprotafyrirtæki þarf að komast upp úr jörðinni. Eftir því sem að það vex hægar, því rótfastara verður það, það er lögmál, trúi ég!

 

En nú er bara að koma í sveitina og fá sér virkilega gott kaffi og með því, skoða Íslenska náttúru og íslenskt handverk!

 

   Sól á kaffihúsinu     cakes in glass  bolli tk out

Verið öll innilega velkomin!   

 


Nú skal ný Ríkisstjórn verða mynduð!

Ég vona svo sannarlega að menn taki nú til sín niðurstöður kosninganna og myndi nýja stjórn, með Sjálfstæðismönnum og annað hvort Vinstri Grænum eða Samfylkingunni. Það er rödd kjósenda og eftir henni eiga flokkarnir að fara. Það er lýðræði, ekki lafa saman vegna þingmannameirihluta, þar sem að sá hluti nær varla 50 prósentum þjóðarinnar.

 

Þjóðin vill sterka stjórn sem að endurspeglar vilja kjósenda og hann er skýr. Menn vilja stöðugt efnahagslíf, en ekki síður sterkt samtryggingarkerfi sem að mismunar ekki þegnum sínum. Menn vilja meiri jöfnuð í launakjörum og lægri skatta og mun meiri persónuafslátt.  Menn vilja jafnvel hátekjuskatt, en þá á háar tekjur, en ekki miðlungstekjur.

 

Ekki sækja alltaf í vasa þeirra sem að minnst hafa, heldur til þeirra sem að hafa svo mikið, að miljónin er þeim eins og þúsundkallinn og ótrúlega virðist vera orðið mikið af slíkum einstaklingum. Fólki sem að er ekki í neinum tengslum við hvað almenningur þarf að sætta sig við í kjörum. Fólki sem að hefur þá stöðu að geta gamlað með peningana sína, nóg er af þeim og safna í hrúgur óáreitt. Enginn hátekjuskattur sem að truflar þessa einstaklinga við iðju sína! Þetta er hróplegt óréttlæti og algjör óþarfi, því að maðurinn þarf ekki svo mikið, að hann hætti að kunna að meta það sem að lítið er og missi tengslin við hvað það er að þurfa að hafa fyrir hlutunum.

 

Að einkavæða alla hluti er ekki alltaf rétta leiðin, vissulega er frelsið gott og markaðslögmálið, en þegar að mismunurinn milli fátækra og ríkra heldur áfram að breikka og jarða-og fasteignaverð hækkar stöðugt, vegna yfirboða þeirra sem mest hafa, skekkist myndin verulega. Hinn venjulegi borgari á alltaf minni möguleika á að koma sér upp heimili og fyrirtæki, því þenslan er slík.

 

Í tíð Ingibjargar Sólrúnar, sem borgarstjóra voru þau ógæfuskref stigin að vera með uppboð á lóðum sem að Borgin úthlutaði. Ég vona svo sannarlega að Ingibjörg Sólrún læri af misstökum sínum og muni nú, ef hún kemst í Ríkisstjórn, hverju hún hefur lofað almenningi. Að skapa lífvænlegri kjör, en  þennsla á lóða- og fasteignamarkaði er ekki leiðin til þess, því að vissulega hefur lóðaverð hækkað í kjölfar þessa uppboða Borgarinnar á sínum tíma og verið því fólki sem er að reyna að koma yfir sig þaki, þungur baggi.

 

Fríar tannlækningar fyrir börn er forgangsmál og einnig mætti skoða mál sjóndapra, því að þeirra hlutur í heilbrigðiskerfinu er mjög rýr. Ég er með sjón upp á -6,50 og hef aldrei fengið neitt frá Tryggingastofnun í sambandi við mína fötlun, því að þetta er fötlun. Ég get ekki verið án gleraugna í þessu samfélagi og hef notað gleraugu frá 10 ára aldri. Mín gleraugu kosta að lámarki um 60.000 krónur og að reka linsur sem að ég þoli, kosta mig u.þ.b. 4000 á mánuði. Þetta er eitthvað sem að ég get ekki verið án. Aðgerð er túrlega um 250.000-300.000 krónur, ekkert borgað í henni frá Tryggingastofnun, eins og þetta værir fegrunaraðgerð, en ekki fötlun.  Ekki er víst að ég geti farið í aðgerð, þar sem að ég þjáist af miklum augnþurrki.

 

En nú er bara að sjá hvað verður og vonandi er þetta þjóðkjörna fólk, ábyrgt og í mun að lúta rödd lýðræðisins, mynda nýja Ríkisstjórn! 

 

 


Framhald á ljóðabálki - leit mín að Guði!

 

Sátt

Þó að ég sé nakin

þá er mér hlýtt!

En þú skelfur

í þykkum klæðum fortíðar

 

Þroski

Ekki toga í grasið

það slitnar!

Allt þarf að vaxa

líka fjólubláa blómið!

 

Hvað þá ?

Ef ekki skynjun -

hvað þá ?

Ef ekki trú -

hvað þá ?

 

Ósk 

Ef heimurinn væri fjólublár -

gætum við dansað, dansað,

liðið saman í eitt og

búið til sól !

 

Trú

Maðurinn sem að sáði fræi

í hjarta mitt - fór !

En hann kemur aftur !

 

Verðmæti

Veit lítið

hef lært mikið

á langt eftir

en treysti !

 

 

höfundur -  G.Helga Ingadóttir

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband