Þöggun

Ég bloggaði um daginn um foreldra mína, sem að bæði eru látin úr krabbameini. Krabbameini á líkama, en einnig á sálinni. Ég átti geðveikan föður, sem að aldrei fékk meðferð og var því alltaf í ástandi sem erfitt var að höndla, bæði fyrir hann, sem og fjölskylduna.

Ég vonaðist til að fá meiri viðbrögð, meiri áhuga á þjáningum geðsjúkar í samfélaginu. En því miður þá virðist þöggunin eða þá bara afskiptaleysið vera slíkt í samfélaginu, að þessi frásögn mín náði ekki athygli margar. Það er miður.

Ég er ekki að leita eftir samúð, hana þarf ég ekki, mér líður vel og hef svo margt að þakka fyrir. Nei, ástæðan fyrir því að ég vil opna þetta mál og segja frá minni persónulegu reynslu er að það er mikil þörf á breytingum í samfélaginu, hvað varðar mál geðsjúkra, því að þetta eru grafalvarleg mál, já lífshættuleg mál.

Það falla svo margir fyrir eigin hendi að það er óhugnanlegt og það ungt fólk, sem að ætti að eiga framtíðina fyrir sér. HVAÐ VELDUR!! Ég tel að það sé hægt að gera svo miklu, miklu betur en gert er í dag, til að svara þessu kalli á hjálp, því að oft hefur fólk reynt oftar en einu sinni að svipta sig lífi, áður en það tekst. Eins bara það að sálfræðingar séu ekki viðurkenndir þannig að Tryggingarstofnun Ríkisins taki þátt í að niðurgreiða tíma hjá þeim, er sorglegt í nútímalegu samfélagi.  

Það er þannig að ef að einstaklingur reynir t.d. að taka líf sitt með of stórum lyfjaskammti og það næst að bjarga viðkomandi, með því að dæla upp úr honum, þá er hann bara sendur heim strax daginn eftir, ef að hann kýs svo sjálfur, jafnvel ennþá í annarlegu lyfja-ástandi og algjörlega dómgreindarlaus vegna þess. Engin sjálfræðis svipting, gjörðu svo vel kannski tekst þér bara betur næst við að reyna að klára þetta auma líf þitt, mætti þess vegna lesa út úr aðgerðum heilbrigðis-stofnanna, eða kannski er ekki við þær að sakast, heldur lagaumhverfið sem að við búum í.  Það er enginn lagabókstafur til um hvað eigi að gera, þegar að einstaklingur (veikur) reynir að taka líf sitt. Engin sjálfræðissvipting, sem að ég teldi algjörlega nauðsynlega í allavega nokkra daga, á meðan að sjúklingurinn værir að lenda og þá kannski mótækilegri að þiggja hjálp, þegar að lyfjavíman er runnin af honum. Allavega meiri von, heldur en að viðkomandi fari heim í annarlegu ástandi og í mikilli vanliðan. 

Eins að ekki skuli vera til sérþjálfað teymi sem að tæki á móti þeim þolendum ofbeldis, sem að koma að kæra á lögreglustöð, einhver áfallahjálp og úrræði, þau virðast engin vera, það er sannarlega mín reynsla. Þetta er þyngra en tárum taki og þarna virðist ekki nein raunverulega breyting hafa orði. 

Ég kalla eftir breytingum, ég kalla eftir raunverulegum úrræðum, munum það að það er hárfín lína á milli þess að vera heill á geði og að vera geðveikur. Við getum öll veikst, en í samfélagi þar sem Geðveiki er TABÚ, þá er erfitt að horfast í augu við sjálfan sig og sækja hjálp þegar að þörf er. Það er líka erfitt fyrir þá sem hafa GEÐVEIKI STIMPILINN að koma aftur út í samfélagið til starfa, þegar að bata er náð, því að það er jú hægt að ná bata, allavega verða betri, ef við búum í skilningsríku samfélagi, sem að er án fordóma.  


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband