Heimilisofbeldi, skömmin og óttinn!

Í febrúar 2009 lést faðir minn úr krabbameini, aðeins 72 ára að aldri og þremur árum síðar lést móðir mín, í maí 2012, þá 73 ára, einnig úr krabbameini.

Þeirra líf var erfitt, þau fæddust fyrir seinni heimstríðöldina og upplifðu þær miklu breytingar á lífsháttum og lífsskilyrðum þessarar kynslóðar.  Ég er fædd 1961 og var þeirra yngsta barn og reyndar eina eftirlifandi barn föður míns, þar sem að bróðir minn lést í september 1983, aðeins 23 ára gamall. Hann féll fyrir eigin hendi.

Ég hef skoðað mikið í minn persónuleika og tilfinningalíf, reynt að vinna úr erfiðum upplifunum og tilfinningum, en einhvern veginn virðist alltaf vera af nógu að taka, alltaf nýir fletir að koma upp eftir því sem að aldurinn færist yfir. 

Pabbi var mikið veikur maður, síðustu 20 árin var hann vissulega að fást við líkamlega sjúkdóma, en það sem að þjáði hann þó mest, var geðheilsan. Við þjáðumst öll fjölskyldan vegna geðheilsu pabba, hann varð mjög illskeyttur og ofbeldisfullur, átti erfitt með að tjá jákvæðar tilfinningar, enda fann hann þær kannski ekki mjög oft. Það er svolítið skrítið finnst mér hvernig fólk lítur á svona einstaklinga eins og pabba. Menn eru taldir klikkaðir ruddar sem fólk fyrirlítur og vill sem minnst afskipti hafa af. En ekki er allt sem sýnist. Pabbi var hræddur, einmanna og gleðivana. Þjáður af þunglyndi og miklum geðsveiflum, sem að tóku af honum alla stjórn. Hann gat ekki sýnt kærleika þeim sem að skiptu hann mestu máli, hann gat ekki heldur elskað sjálfan sig. Allir voru fífl og asnar, enginn með viti, nema kannski hann. Þjáður af minnimáttarkennd, sem að braust út í oflæti og mikilmennsku.

Það var ofbeldi, andlegt og líkamlegt, kúgun, niðurbrot og neikvæðni. Við mamma töluðum um þetta allt eftir að pabbi dó, já mamma átti mjög erfitt. Hún bæði hataði hann og elskaði, saknaði hans og  var full af reiði og sársauka. Henni fannst lífið hafa svikið sig, allt brugðist í hennar nánasta umhverfi. Hún upplifði sig aleina og hjálparvana, máttlausa og áhrifalausa. Þó svo að fólk vissi, þá vildi enginn hafa afskipti, allavega bara svona í lámarki. Menn vildu ekki rugga bátnum, ekki flækja sig í óþægilega reynslu.

Hvers vegna segi ég þetta. Það er mín upplifum af þeim viðbrögðum sem að ég fékk, þegar að ég reyndi að fá eitthvað gert í málunum. Eftir að ég fullorðnaðist og var komin með eigin fjölskyldu, þá gerði ég nokkrar tilraunir til að reyna að bjarga þeim. Já bjarga þeim. Pabba frá sjálfum sér og mömmu frá pabba. Ég reyndi að fá hann sviptan sjálfræði, í von um að hann yrði greindur, að hann fengi einhverja hjálp.

Ég talaði við geðlækna, fleiri en einn út af pabba og einn þeirra sagði mér, eftir að ég var búin að lýsa hegðun pabba í gegn um árin, að hann væri mjög líklega manísk-deprusífur og jafnvel með geðklofa. Hins vegar, að væri hann með geðklofa, þá væri það eðli sjúkdómsins að sjúklingurinn værir algjörlega óhæfur til að leita eftir hjálp, það gæti hann ekki, þar sem að hann gæti ekki séð eða skynjað ástand sitt sem sjúkt, allir aðrir væru bara ruglaðir. Já, niðurstaðan var sú að hann væri dæmdur til að vera í sjúklegu ástandi, ef ekki ættingjar fengju hann lagðan inn til greiningar. En minn vitnisburður var ekki tekin gildur, ég hafði ekki rétt á að fara fram á þessa sviptingu, það væri mömmu að fara fram á þetta, fá dómsútskurð um sviptingu til að leggja pabba inn.

Var ég ekki búin að minnast á ofbeldi, jú, ofbeldi og kúgun sem að mamma bjó við daglega í 50 ár. Hún var búin á því, gat ekki bjargað þeim, hvorki sjálfri sér né honum. Hún þorði ekki að stíga þessi skref, hún hafði reynt það með litlum árangri og uppskorið bara meira ofbeldi, meiri ótta og kvíða.
Það sveið sárt að þurfa að horfa upp á þetta en geta ekkert gert, finna að enginn vilji væri fyrir því hjá þeim læknum sem að þekktu til þeirra, eða hjá lögreglu sem að vissi meira en þeir vildu viðurkenna, þar sem að mamma, á meðan hún hafði þrek og heilsu til, var ræstingakona á lögreglustöðinni. Þeir höfðu jú einu sinni látið loka pabba inni í fangageymslu, þegar að hann ætlaði að ganga frá mömmu í einu kastinu. Eins hafði hann verið lagður inn á geðdeild eftir að upp úr honum var dælt lyfjum sem hann tók í örvæntingu, en hann fengið að fara heim daginn eftir, með vottun um það frá læknum að hann væri bara í fínasta lagi, hafði bara aðeins verið að reyna að taka líf sitt, annars bara góður. Þetta og svo margt, margt annað sagði mamma mér, eftir að pabbi dó og ég skrifa þetta allt með hennar samþiggi, því að réttu aðstandanda og barna er enginn, þegar heimilisofbeldi og geðveiki er veruleikinn á heimilinu.

Ég er misnotað barn, ekki kynferðislega, nei, en engu síður misnotað barn vegna þeirra aðstæðna sem að foreldrar mínir voru í, geðræn veikindi sem voru og eru ennþá á 21.öldinni TABÚ!

Ég bað mömmu um leifi til að segja frá, til að opna þessa umræðu um geðveiki, um heimilisofbeldi, um máttleysi í öllu heilbrigðis- og dómskerfinu gagnvart þessum málaflokki, já um öll börnin sem að þjást og finna til, sem að reyna að fela og eru meðvirk, þau elska mömmu og pabba, þau eru hrædd og kvíðin, finnst þetta vera sér að kenna, hvar er hjálpin?

Í dag er ég 52 ára, þau eru bæði farin og ég finn sársauka og djúpa sorg vegna þeirra, ég þráði betra líf fyrir þau, ég þráði hjálpina handa þeim, en hún var ekki til staðar, nema jú, þau fengu hjálp við að deyja, líknandi krabbameinsmeðferð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Allar ungar konur hafa væntingar, sumar  um fallegt líf með maka sínum og það er sá væntingaglampi í augum stúlkunnar, sem eigin menn mega aldrei  gleyma. 

En hann vill gleymast hjá sumum og þá er stutt í leiðindin.  Það er ekki alltaf líkamlegt ofbeldi heldur og líka andlegt.  Þar með hefur eiginmaðurinn brugðist skyldum sínum og loforðum, sögðum og gefnum í skyn.  

Því að gagnkvæm virðing og traust verður alltaf að vera til staðar í hjóna bandi.  Séu þau atriði ekki fyrir hendi þá er betra að skilja þó það líti  ekki glæsilega út fyrir konu með börn.   

Hrólfur Þ Hraundal, 2.3.2013 kl. 14:16

2 Smámynd: Hörður Halldórsson

 Þessi lesning er áhrifarík . gangi þér allt í haginn Guðlaug Helga !

Hörður Halldórsson, 2.3.2013 kl. 20:05

3 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Það sem að ég er að lýsa eru ekki nein einföld svör gagnvart. Það að skilja er ekki alltaf svarið. Við erum öll með okkar þarfir og langanir, ekki bara ungar stúlkur, bæði konur og menn hafa sínar langanir og þrár.

Ofbeldi er heldur ekki með einsleita birtingarmynd, heldur er það eins margar myndir af því eins og við erum öll einstök og ólík mennirnir.

Ég er að tala um veikindi á sál, ég er að tala um mjög djúpstæðann sársauka og mikil vonbrigði, sorg. Við getum ekki bara yppt öxlum og sagt, mikið er þetta leiðinlegt að þetta fór svona. Nei við þurfum að skoða og reyna að skilja, hvað getum við lært og hverju er hægt að breyta fyrir þá sem eftir lifa, fyrir komandi kyndslóðir. Ég vona að einhverjir séu tilbúnir til að taka þátt í að breyta og bæta geðheilbrigðisþjónustuna og hjálpa til við hugarfarsbreytingu í þessum málaflokki.

G.Helga Ingadóttir, 3.3.2013 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband