9.11.2007 | 09:26
Hver er Jesús?
Þegar ég var lítil, fór ég í Sunnudaga-skóla, sem var haldinn í Bíósal Austurbæjarskólans. Mer fannst það mjög gaman, að fara í fínu fötin, heyra um Jesú sem var svo ofsalega góður, sérstaklega við börnin og fá Biblíumyndir.
Ég hugsaði mikið um Guð og Jesú, hvar þeir væru og hvort Guð væri að fylgjast með mér. Mér þótt mjög vænt um Jesú - son Guðs, hann var svo góður, læknaði alla og gaf mat og fyrirgaf syndir. Mynd mín af Jesú var mjög falleg.
Svo leið tíminn, ég óx úr grasi og tók mínar ákvarðanir, ég réði mér sjálf og átti mig sjálf. En innra með mér var tómið. Ég var í örvæntingarfullri hamingjuleit og þráði ástina, þráði fegurð, þráði gott líf. Einhvernvegin var svo erfitt að höndla þetta.
Ég burðaðist með skakka sjálfsmynd, afleiðingar af kúgun og einelti vegna offitu, en hafði fengið góða hæfileika til náms og lista í vöggugjöf. Það var samt þannig, að vegna þess að ég var brotin sál, þá skorti mig aga og getu til að nýta mér það sem mér hafði þó svo ríkulega verið gefið.
Líf mitt tók stefnu niður á við og um tíma virtist sem veröld mín væri endanlega að hrynja. Ég missti bróður minn í sjálfsvígi, var á hrakhólum með húsnæði, sambúðin við barnsföður minn slitnaði og ég lagðist inn á Geðdeild í nokkrar vikur. Þá aðeins 24 ára að aldri.
En þar fékk ég góðan stuðning og hjálp frá konu sem var að læra geðlækningar (man ekki hvað hún heitir). Ég var lyfjalaus, en í hvíld frá öllu og var hjálpað um húsnæði fyrir mig og drenginn.
Eftir þetta fór líf mitt að taka aðra stefnu, ég tókst á við minn alkaholisma og hef borið þá gæfu til að vera edrú síðan.
En innan samtakanna (AA) var mikið talað um Guð, samkvæmt skilningi hvers og eins. Ég á AA samtökunum mikið að þakka og þykir ákaflega vænt um þau, allt þetta góða fólk sem að hefur verið samferða mér í AA.
Að kynnast svo Jesú eftir að hafa verið edrú í 5 ár, þvílík breyting. Þá fór allt að gerast. Sporin 12, sem að AA prógrammið byggist á, fóru nú loksins að virka í mínu lífi fyrir alvöru. "Að láta vilja minn og líf, lúta handleiðslu Guðs, samkvæmt skilningi mínum á honum" varð allt í einu raunveruleiki.
Ég hafði þekkt Guð af afspurn, en nú þekkti ég hann persónulega og vissi að hann bar umhyggju fyrir mér.
Meginflokkur: Lífið og Tilveran | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:47 | Facebook
Athugasemdir
Hef nánast sömu sögu að segja. Jesús var mitt skjól alla tíð og því fór ekki verr hjá mér. Jesús,sporin og AA.Eru mitt akkeri.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 10:03
Gaman að sjá þig Birna, já svona er nú lífið.
G.Helga Ingadóttir, 9.11.2007 kl. 10:09
Það er svolítið sérkennilegt að segja frá því, að ég hefi ekki öðlast trú á almættið, en samt fékk fyrir nokkrum árum heimsókn um miðja nótt. Var lengi búinn að ákalla guð og sérstaklega eftir erfið fyllirí. Ég bað um hjálp og ef einhver guð væri til, þá léti hann vita af sér. Nokkru eftir meðferð og edrú líf gerðist það um miðja nótt, að ég hálf vaknaði, fannst sem loftljósið í svefnherberginu kviknaði. Sofnaði sennilega aftur, en glansvaknaði við að ég horfði á loftljósið í herbergin í nokkrar sekúndur. Brá nokkuð þar sem kona mín var farinn í loðnufrystingu fyrir tveimur tímum áður. Við búum í nýuppgerðri íbúð með nýjum raflögnum þannig að ekki var hægt að kenna því um. Hvað skal segja? Er enn að velkjast í vafa um það hvað var þarna á ferðinni, en hugsa oft til þessa atviks.
Þorkell Sigurjónsson, 9.11.2007 kl. 20:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.