Ein til frásagnar

AÐ KVÖLDI hins 11. janúar sl. ákvað ég að láta verða af því að lesa bókina, sem ég lét taka frá fyrir mig á bókasafninu. Hún hefur legið á náttborðinu mínu síðan fyrir áramót, ég vissi fyrir víst að þetta yrði krefjandi og erfið lesning og beið eftir sjálfri mér, að ég yrði tilbúin. Ég hélt að trúlega myndi ég kannski sofa illa og finna til í sálinni, en mér fannst eins og þetta væri skyldulesning fyrir mig. Þetta er jú saga konu sem lifir núna og er fáeinum árum yngri en ég.

Í formála bókarinnar segir Wain Dyer: "Ég hef lesið þúsundir bóka á síðastliðnum 50 árum eða svo. Bókin sem þú ert með í höndunum er sú langáhrifamesta og merkilegasta í því yfirgripsmikla safni bóka sem ég hef lesið um ævina.

Þú ert nú að leggja upp í ferð sem eflaust mun breyta viðhorfum þínum til þess máttar sem býr í manneskjunni og trúnni – um alla framtíð."

Þegar ég las þessi orð var sem einhver kraftur snerti hjarta mitt og ég var tilbúin að leggja upp í þessa ferð.

Því er skemmst frá að segja að þegar ég lagði bókina frá mér, um kl. tvö um nóttina, var henni lokið. Ég gat ekki stoppað. Ég hef smávandamál í augum vegna augnþurrks og hefði að öllu jöfnu þurft að væta augun með geli, eða gervitárum, við svona mikla lesningu, en ég fann engan þurrk. Reglulega vættu mín eigin tár augun, ekki vegna þess að ég væri yfirbuguð af hryllingi og sorg, nei ég var snortin og þakklát, því að mitt í allri skelfingunni var Guð sjálfur að starfa, friður hans, sem er æðri öllum skilningi, og kærleikur hans, sem enginn mannlegur máttur fær skilið.

Mér fannst sem hann væri með mér að fylgja Immaculée í gegnum skelfilegasta tímabil ævi hennar, sem samt í lokin gaf henni ríkidæmi sem enginn mannlegur máttur getur rænt hana. Og ég fann fyrir fátækt minni. Ég fann að ég átti svo margt að þakka fyrir, en sjálfselska mín og eigingirni hafa svo rænt mig sannri gleði og þakklæti fyrir lífið.

Hvers vegna veljum við mennirnir að hata og stríða, þegar við getum leitað til hans sem gefur okkur örlátlega af kærleika sínum og mettar sál okkar með friði sínum! Hvers vegna þurfum við alltaf að vera að leika litla GUÐI!

Ég varð að tjá mig eftir lestur þessarar bókar, því hún snerti sál mína djúpt og minnti mig á að allir menn eru bræður mínir og systur mínar, við erum öll sköpun hins almáttka.

Trú mín á Guð gefur mér von. Það segir í Opinberunarbókinni 21,3–4: "Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: "Sjá, tjaldbúð Guðs er á meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein, né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.""

Í lok bókarinnar segir Immaculée: "Hvað snertir föðurland mitt, þá veit ég að Rúanda getur grætt sár sín ef sérhvert hjarta lærir að fyrirgefa. Nú er verið að sleppa tugum þúsunda manna, sem voru hnepptir í fangelsi fyrir manndráp á tímum þjóðarmorðsins, heim í gömlu þorpin sín og bæina svo að ef fyrirgefning getur einhvern tíma talist tímabær, þá er það núna. Rúanda getur aftur orðið paradís, en það mun útheimta kærleika alls heimsins að græða sár föðurlands míns. Og þannig ætti það líka að vera, því að það sem gerðist í Rúanda kom við okkur öll – mannkynið allt hlaut sár í þjóðarmorðinu.

Kærleikur í einu hjarta getur skipt öllu heimsins máli. Ég trúi því að við getum grætt sár Rúanda – og heimsins okkar – með því að græða eitt hjarta í einu. Ég vona að saga mín sé lóð á vogarskálarnar."

Þessi saga Immaculée er saga konu sem missti nánast alla sína nánustu í þjóðarmorðinu í Rúanda. Hún þurfti að þola þjáningar sem við flest munum aldrei skilja til fullnustu. En kraftaverkið í lífi hennar er fyrirgefningin sem Guð einn getur gefið. Ég vil hvetja alla til að lesa þessa bók og sofa ekki í þægindum sínum heima. Látum raunir bræðra okkar skipta okkur máli og hlustum á sögu þeirra.

GUÐLAUG HELGA INGADÓTTIR,

leirlistarkona og söngkona.

Frá Guðlaugu Helgu Ingadóttur:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fimm?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband