18.3.2013 | 01:28
Þöggun
Ég bloggaði um daginn um foreldra mína, sem að bæði eru látin úr krabbameini. Krabbameini á líkama, en einnig á sálinni. Ég átti geðveikan föður, sem að aldrei fékk meðferð og var því alltaf í ástandi sem erfitt var að höndla, bæði fyrir hann, sem og fjölskylduna.
Ég vonaðist til að fá meiri viðbrögð, meiri áhuga á þjáningum geðsjúkar í samfélaginu. En því miður þá virðist þöggunin eða þá bara afskiptaleysið vera slíkt í samfélaginu, að þessi frásögn mín náði ekki athygli margar. Það er miður.
Ég er ekki að leita eftir samúð, hana þarf ég ekki, mér líður vel og hef svo margt að þakka fyrir. Nei, ástæðan fyrir því að ég vil opna þetta mál og segja frá minni persónulegu reynslu er að það er mikil þörf á breytingum í samfélaginu, hvað varðar mál geðsjúkra, því að þetta eru grafalvarleg mál, já lífshættuleg mál.
Það falla svo margir fyrir eigin hendi að það er óhugnanlegt og það ungt fólk, sem að ætti að eiga framtíðina fyrir sér. HVAÐ VELDUR!! Ég tel að það sé hægt að gera svo miklu, miklu betur en gert er í dag, til að svara þessu kalli á hjálp, því að oft hefur fólk reynt oftar en einu sinni að svipta sig lífi, áður en það tekst. Eins bara það að sálfræðingar séu ekki viðurkenndir þannig að Tryggingarstofnun Ríkisins taki þátt í að niðurgreiða tíma hjá þeim, er sorglegt í nútímalegu samfélagi.
Það er þannig að ef að einstaklingur reynir t.d. að taka líf sitt með of stórum lyfjaskammti og það næst að bjarga viðkomandi, með því að dæla upp úr honum, þá er hann bara sendur heim strax daginn eftir, ef að hann kýs svo sjálfur, jafnvel ennþá í annarlegu lyfja-ástandi og algjörlega dómgreindarlaus vegna þess. Engin sjálfræðis svipting, gjörðu svo vel kannski tekst þér bara betur næst við að reyna að klára þetta auma líf þitt, mætti þess vegna lesa út úr aðgerðum heilbrigðis-stofnanna, eða kannski er ekki við þær að sakast, heldur lagaumhverfið sem að við búum í. Það er enginn lagabókstafur til um hvað eigi að gera, þegar að einstaklingur (veikur) reynir að taka líf sitt. Engin sjálfræðissvipting, sem að ég teldi algjörlega nauðsynlega í allavega nokkra daga, á meðan að sjúklingurinn værir að lenda og þá kannski mótækilegri að þiggja hjálp, þegar að lyfjavíman er runnin af honum. Allavega meiri von, heldur en að viðkomandi fari heim í annarlegu ástandi og í mikilli vanliðan.
Eins að ekki skuli vera til sérþjálfað teymi sem að tæki á móti þeim þolendum ofbeldis, sem að koma að kæra á lögreglustöð, einhver áfallahjálp og úrræði, þau virðast engin vera, það er sannarlega mín reynsla. Þetta er þyngra en tárum taki og þarna virðist ekki nein raunverulega breyting hafa orði.
Ég kalla eftir breytingum, ég kalla eftir raunverulegum úrræðum, munum það að það er hárfín lína á milli þess að vera heill á geði og að vera geðveikur. Við getum öll veikst, en í samfélagi þar sem Geðveiki er TABÚ, þá er erfitt að horfast í augu við sjálfan sig og sækja hjálp þegar að þörf er. Það er líka erfitt fyrir þá sem hafa GEÐVEIKI STIMPILINN að koma aftur út í samfélagið til starfa, þegar að bata er náð, því að það er jú hægt að ná bata, allavega verða betri, ef við búum í skilningsríku samfélagi, sem að er án fordóma.
2.3.2013 | 01:55
Heimilisofbeldi, skömmin og óttinn!
Í febrúar 2009 lést faðir minn úr krabbameini, aðeins 72 ára að aldri og þremur árum síðar lést móðir mín, í maí 2012, þá 73 ára, einnig úr krabbameini.
Þeirra líf var erfitt, þau fæddust fyrir seinni heimstríðöldina og upplifðu þær miklu breytingar á lífsháttum og lífsskilyrðum þessarar kynslóðar. Ég er fædd 1961 og var þeirra yngsta barn og reyndar eina eftirlifandi barn föður míns, þar sem að bróðir minn lést í september 1983, aðeins 23 ára gamall. Hann féll fyrir eigin hendi.
Ég hef skoðað mikið í minn persónuleika og tilfinningalíf, reynt að vinna úr erfiðum upplifunum og tilfinningum, en einhvern veginn virðist alltaf vera af nógu að taka, alltaf nýir fletir að koma upp eftir því sem að aldurinn færist yfir.
Pabbi var mikið veikur maður, síðustu 20 árin var hann vissulega að fást við líkamlega sjúkdóma, en það sem að þjáði hann þó mest, var geðheilsan. Við þjáðumst öll fjölskyldan vegna geðheilsu pabba, hann varð mjög illskeyttur og ofbeldisfullur, átti erfitt með að tjá jákvæðar tilfinningar, enda fann hann þær kannski ekki mjög oft. Það er svolítið skrítið finnst mér hvernig fólk lítur á svona einstaklinga eins og pabba. Menn eru taldir klikkaðir ruddar sem fólk fyrirlítur og vill sem minnst afskipti hafa af. En ekki er allt sem sýnist. Pabbi var hræddur, einmanna og gleðivana. Þjáður af þunglyndi og miklum geðsveiflum, sem að tóku af honum alla stjórn. Hann gat ekki sýnt kærleika þeim sem að skiptu hann mestu máli, hann gat ekki heldur elskað sjálfan sig. Allir voru fífl og asnar, enginn með viti, nema kannski hann. Þjáður af minnimáttarkennd, sem að braust út í oflæti og mikilmennsku.
Það var ofbeldi, andlegt og líkamlegt, kúgun, niðurbrot og neikvæðni. Við mamma töluðum um þetta allt eftir að pabbi dó, já mamma átti mjög erfitt. Hún bæði hataði hann og elskaði, saknaði hans og var full af reiði og sársauka. Henni fannst lífið hafa svikið sig, allt brugðist í hennar nánasta umhverfi. Hún upplifði sig aleina og hjálparvana, máttlausa og áhrifalausa. Þó svo að fólk vissi, þá vildi enginn hafa afskipti, allavega bara svona í lámarki. Menn vildu ekki rugga bátnum, ekki flækja sig í óþægilega reynslu.
Hvers vegna segi ég þetta. Það er mín upplifum af þeim viðbrögðum sem að ég fékk, þegar að ég reyndi að fá eitthvað gert í málunum. Eftir að ég fullorðnaðist og var komin með eigin fjölskyldu, þá gerði ég nokkrar tilraunir til að reyna að bjarga þeim. Já bjarga þeim. Pabba frá sjálfum sér og mömmu frá pabba. Ég reyndi að fá hann sviptan sjálfræði, í von um að hann yrði greindur, að hann fengi einhverja hjálp.
Ég talaði við geðlækna, fleiri en einn út af pabba og einn þeirra sagði mér, eftir að ég var búin að lýsa hegðun pabba í gegn um árin, að hann væri mjög líklega manísk-deprusífur og jafnvel með geðklofa. Hins vegar, að væri hann með geðklofa, þá væri það eðli sjúkdómsins að sjúklingurinn værir algjörlega óhæfur til að leita eftir hjálp, það gæti hann ekki, þar sem að hann gæti ekki séð eða skynjað ástand sitt sem sjúkt, allir aðrir væru bara ruglaðir. Já, niðurstaðan var sú að hann væri dæmdur til að vera í sjúklegu ástandi, ef ekki ættingjar fengju hann lagðan inn til greiningar. En minn vitnisburður var ekki tekin gildur, ég hafði ekki rétt á að fara fram á þessa sviptingu, það væri mömmu að fara fram á þetta, fá dómsútskurð um sviptingu til að leggja pabba inn.
Var ég ekki búin að minnast á ofbeldi, jú, ofbeldi og kúgun sem að mamma bjó við daglega í 50 ár. Hún var búin á því, gat ekki bjargað þeim, hvorki sjálfri sér né honum. Hún þorði ekki að stíga þessi skref, hún hafði reynt það með litlum árangri og uppskorið bara meira ofbeldi, meiri ótta og kvíða.
Það sveið sárt að þurfa að horfa upp á þetta en geta ekkert gert, finna að enginn vilji væri fyrir því hjá þeim læknum sem að þekktu til þeirra, eða hjá lögreglu sem að vissi meira en þeir vildu viðurkenna, þar sem að mamma, á meðan hún hafði þrek og heilsu til, var ræstingakona á lögreglustöðinni. Þeir höfðu jú einu sinni látið loka pabba inni í fangageymslu, þegar að hann ætlaði að ganga frá mömmu í einu kastinu. Eins hafði hann verið lagður inn á geðdeild eftir að upp úr honum var dælt lyfjum sem hann tók í örvæntingu, en hann fengið að fara heim daginn eftir, með vottun um það frá læknum að hann væri bara í fínasta lagi, hafði bara aðeins verið að reyna að taka líf sitt, annars bara góður. Þetta og svo margt, margt annað sagði mamma mér, eftir að pabbi dó og ég skrifa þetta allt með hennar samþiggi, því að réttu aðstandanda og barna er enginn, þegar heimilisofbeldi og geðveiki er veruleikinn á heimilinu.
Ég er misnotað barn, ekki kynferðislega, nei, en engu síður misnotað barn vegna þeirra aðstæðna sem að foreldrar mínir voru í, geðræn veikindi sem voru og eru ennþá á 21.öldinni TABÚ!
Ég bað mömmu um leifi til að segja frá, til að opna þessa umræðu um geðveiki, um heimilisofbeldi, um máttleysi í öllu heilbrigðis- og dómskerfinu gagnvart þessum málaflokki, já um öll börnin sem að þjást og finna til, sem að reyna að fela og eru meðvirk, þau elska mömmu og pabba, þau eru hrædd og kvíðin, finnst þetta vera sér að kenna, hvar er hjálpin?
Í dag er ég 52 ára, þau eru bæði farin og ég finn sársauka og djúpa sorg vegna þeirra, ég þráði betra líf fyrir þau, ég þráði hjálpina handa þeim, en hún var ekki til staðar, nema jú, þau fengu hjálp við að deyja, líknandi krabbameinsmeðferð.
Lífstíll | Breytt 11.12.2013 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2011 | 13:03
Það þarf engan hagfæðing til að sjá það að lánshæfis mat þjóðarinnar hlýtur að lækka með auknum skuldbindingum!
Ég ætla að segja nei á laugardaginn við Icesave samningnum og ástæðan er einfaldlega sú að við skuldum þetta ekki fyrr en við höfum undirritað samninginn, eða verið dæmd til að greiða Bretum og Hollendingum fyrir Icesave.(Sem að ég tel hverfandi líkur til að verði gert). Þegar talað er um mismunun vegna þjóðernis er það alrangt, þar sem allir þeir sem áttu reikninga í bönkum staðsettum á Íslandi fengu greitt út sína fjármuni, sama hvert þjóðerni reikningseigenda var.
"Ég hef ekki trú á því að með að beygja sig undir kúgarann, þá verði hann voða góður." Staðreyndin er sú að þá bjóðum við bara upp á meira ofbeldi og kúgun, en ég vil velja frelsið, ef að það býðst. Hryðjuverkalögin voru ofbeldi gegn Íslenskri þjóð og sýndu þau það skýrt að hér er engin miskunn gagnvart okkur. Bretar hafa ekki verið þekktir fyrir það að klappa þeim, sem þeir ná undir sitt vald vinalega á kollinn, því miður er það staðreynd. Ég er þar með ekki a dæma alla bresku þjóðina, heldur valdhafa hennar.
Það er mjög mikilvægt nú að Íslendingar sendi skýr skilaboð út í heiminn og segi NEI, þar sem að þessar skuldir eru ekki þjóðarinnar og kominn er tími til að fjármagns eigendur, hvar sem að þeir eru staðsettir í heiminum, axli sjálfir ábyrgð á sínu sukki.
Umræðan | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.11.2010 | 21:44
Ljósmyndasýning í Eldstó - Eldgos-myndir frá Eyjafjallajökli Ragnars TH Sigurðssonar
Ljósmyndasýning Ragnars TH Sigurðssonar frá gosinu í Eyjafjallajökli verður opnuð í Eldstó Café og Húsi leirkerasmiðsins á Hvolsvelli þann 28.nóvember, þ.e. 1. Sunnudag í Aðventu. G.Helga Ingadóttir söngkona og Birgir Jóhann Birgisson tónlistarmaður flytja nokkur lög saman við opnun sýningarinnar, sem að verður kl. 15 og má jafnvel eiga von á, óvættum og skemmtilegum uppákomum að auki.
Sýningin sem fer upp í Eldstó Café er sama ljósmyndasýning, sem fer upp hjá Rolls Royce í London á næstunni. Ragnar TH er þekktur fyrir að taka einstæðar myndir af Eldgosum og hefur haldið námskeið fyrir ljósmyndara víðsvegar að úr heiminum í að mynda eldgos. Hann rekur sitt eigið fyrirtæki, Arctic Images = www.arctic-images.com
Ragnar TH hóf feril sinn sem blaðaljósmyndari, en fór fljótlega að starfa sjálfstætt. Hann hefur hlotið þrenn CLIO verðlaun og tekið þátt í fjölda sýninga á myndum sínum.
Bókin Eyjafjallajökull eftir Ara Trausta Guðmundsson jarðfræðing og Ragnar TH sem kom út á þessu ári fékk mikla athygli bæði hérlendis og erlendis, seldist strax upp og nú er komin út aftur haust útgáfa af henni, sem verður til sölu ma. í Eldstó. Margar af myndunum í bókinni verða á sýningunni og eru til sölu. Myndirnar sem verða settar upp á sýningunni, fengu umfjöllun bæði í New York Times og tímaritinu National Geographic í vor og prýddu forsíður beggja blaðanna.
Má einnig geta þess að leirmunirnir sem að eru eftir hjónin í Eldstó, Þór og Helgu, eru glerjaðir með al-íslenskum Eldfjallaglerungum og því hæfir það einkar vel að hafa slíka sýningu í Eldstó.
Ragnar TH Sigurðsson er stórt nafn í íslenskri ljósmyndun og enginn ætti að láta þessa sýningu fram hjá sér fara.
13.11.2010 | 11:53
Silver Dagger , þjólag vel þekkt erlendis, en ekki margir sem hafa heyrt það hér heima
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2010 | 00:38
Hetjur og átrúnaðargoð
Ég var að lesa yfir bloggið mitt í dag, gamlar bloggfærslu og skoða athugsemdir sem að skrifaðar voru af bloggvinum. Yfir höfuð mög falleg orð í minn garð.
Ég er þannig, að ef að ég set eitthvað á prent, þá reyni ég að vera mjög varkár og eins tillitssöm og mér er unnt. Í samskiptum er ég ekki þannig, ég er frekar beinskeytt í svörum ef að mér finnst að mér vegið og hef ekki alltaf stjórn á skapi mínu, eða tilfinningum. Ég hins vegar læt ekki eftir mér slíkan munað þegar ég blogga.
Afhverju er ég að tala um þetta. Jú, ég er trúuð manneskja og mín fyrirmynd í lífinu er Drottinn Jesú Kristur, en sannleikurinn er sá að ég er langan veg frá því að vera nokkuð í líkingu við hann. Ég á það til að velta mér upp úr hlutunum, vera auðsærð, móðgast, reiðast, falla í þá gryfju að tala ekki alltaf vel um annað fólk og er mjög ósveigjanleg í því sem að mér finnst. Ég er skapstór og núna, komin á þennan góða aldur sem að ég er á, finnst mér hormónarnir stundum vera að trufla mig. Ég er sem sagt MANNLEG ...
Ég áttaði mig á því, að það er enginn vandi að setja annað fólk á stall, telja það æðislegar persónur og dáðs af því úr fjarlægð, nú og ef að það bregst, sem að jú það mun alveg örugglega gera, þá fellur það í áliti. Dómur okkar mannanna er harður og miskunnarlaus, við annað fólk og einnig okkur sjálf. Ég átti t.d. einu sinni bróður sem að valdi það að taka sitt eigið líf, þannig dæmi hann sjálfan sig til dauða, hafði ekki miskunn með sjálfum sér, né von. Ég elska hann engu síður og dæmi hann ekki. Blessuð sé minning hans.
Það er heldur engin vandi að setja sjálfan sig á stall þegar að vel gengur og fyllast af hroka og sjálfs-ánægju, bæði að vera settur á stall og það að gera það sjálfur er slæmur staður til að vera á. Fallið af stallinum getur verið mjög sársauka fullt.
Ég vil ekki vera sett á stall, hvorki af mér sjálfri, né öðrum. Ég vil heldur ekki láta traðka á mér, það sama á við, hvorki af sjálfri mér né öðrum. Allt sem að ég geri og sú geta sem ég hef, er gjöf og ég hef valið það á þessu augnabliki að vera þakklát, en það þýðir ekki að ég sé stöðuglega þakklát og glöð, því miður er það ekki svo. Tilfinningar koma og fara, mitt er valið, hvað vil ég gera við þær. Hugsanir koma og fara, ég hef líka val þar, hvað vil ég gera við þær.
Trúin er og hefur verið mér dýrmæt, oft finnst mér allt vera eitthvað svo hégómlegt og ódýrt, tilgangslaust og eftirsókn eftir eitthverju sem að kitlar bara hégóma minn. Þá er gott að geta skoðað sig á heiðarlegan hátt, fara yfir sviðið og finna fjársjóðinn í þessu öllu saman, hvað það er sem að skiptir mig máli, ekki bara mig, því að ég er jú í samfélagi við annað fólk. Hvað skiptir manninn minn máli, börnin mín, móður mína og jú annað fólk sem á vegi mínum verður. Ég get að sjálfsögðu ekki lifað eftir því sem að öðrum finnst, en ég verð samt að læra að lifa í samskiptum við annað fólk í sannleika og heiðarleika. Læra að vera eiginkona, móðir, dóttir, vinur, manneskja sem að nýtur þess að vera til og gefa af mér það sem Guð hefur gefið mér. Nota mína hæfileika til góðs fyrir sjálfa mig og aðra. Annars er þetta ekki til neins!
31.10.2010 | 11:38
Hugleiðing um Guð og trú á hann ...
Allir menn eru syndugir og skortir Guðs Dýrð, segir Ritningin. Út frá þeim bæjardyrum séð er maðurinn ekki saklaus, heldur ranglátur.
Hvers vegna er maðurinn ranglátur?
Samkvæmt Ritningunni valdi maðurinn það sjálfur að hafna Guði, þ.e. boðum hans og trúa frekar Djöflinum, þegar hann kom að efasemdum í huga Evu og Adams.
Vegna þess að þau völdu að trúa Djöflinum og hans blekkingum, þá kom bölvun og synd yfir mannkynið. Það vald sem að Adam og Eva höfðu yfir Jörðinni, afhentu þau Djöflinum og samkvæmt Ritningunni er hann Herra Heimsins í dag, en það vald var áður í höndum Adams og Evu, þ.e. fyrir syndafallið.
Þær hörmungar og sú neyð sem í Heiminum ríkir er ekki Guðs vilji, væri það svo, þá hefði hann aldrei opnað neina leið til björgunar fyrir manninn.
Strax í upphafi ákvað Drottinn að koma sjálfur niður til mannkynsins, í líki Sonarins, Jesú, en þeir eru eitt og taka á sig refsingu syndarinnar.
Í fyrstu Mósebók stendur:
Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: "Hvar ertu?"10Hann svaraði: "Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig." 11En hann mælti: "Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?"
12Þá svaraði maðurinn: "Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át."
13Þá sagði Drottinn Guð við konuna: "Hvað hefir þú gjört?" Og konan svaraði: "Höggormurinn tældi mig, svo að ég át."
14Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: "Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga. 15Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess."
Ath! Ekki hefur konan sæði. Þetta er fyrsti spádómur Biblíuna um Meyfæðingu Jesú. Höfuð Höggormsins er mynd upp á veldi hans, en Hæll Sæðis Konunnar, Jesú er mynd upp á Krossfestinguna.
Drottinn er ekki maður að hann ljúgi og hann getur eðli síns vegna ekki farið í kring um hlutina, eða gegn boðum sínum. Guð ER SANNLEIKUR! Hann segir; laun syndarinnar er Dauði og hann tók sjálfur Kross Dauðans á sig og borgað þar með fullt verð syndarinnar.
En ekki er tími Dómsins kominn enn, í dag er náðardagur og tími Blóðsáttmála Drottins Jesú, hann er sá sem tók á sig alla synd Mannkynsins, mína synd, þína synd. Ennþá er samt val. Við eru sköpuð í Guð mynd, með kraft sköpunar í okkur og frjálsan vilja. Hjarta sem er óuppfyllt án Drottins, hungur sem aldrei er hægt að seðja án Drottins og þrá sem aldrei verður uppfyllt án Drottins. Þrá eftir Kærleikanum, eftir tilgangi. En einnig er í manninum óseðjandi græðgi, ef hann ekki mætir Guði sínum og biður hann um hjálp og miskunn. Það er hið synduga eðli, sem mannkynið fékk í arf frá forforeldrum sínum.
Þetta er kanski full barnalegt og einfalt til að geta trúað því, en Jesús sagði að sá sem ekki kæmi til Guðs Föður eins og barn, gæti alldrei inn í himnaríki komist.
Hann sagði líka að Guðs Ríki væri hér!
Hann sagði líka að Guð væri Andi og að það sem að holdinu væri fætt, væri hold, og það sem af Andanum væri fætt, væri Andi. Yður ber að endurfæðast í Anda, sagði Jesú! Að eignast Anda Guðs og þar með meðtaka Guðsríkið innra með okkur.
Efasemdin er sterkast vopn Djöfulsins, en í Trúnni er enginn efi.
Í Jakops bréfi segir;
5Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. 6En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. 7Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, 8að hann fái nokkuð hjá Drottni.
Trúin segir já og Amen, verði svo. Trúin treystir Guði og hafnar Efanum.
Guð blessi þig Ólafur Þór og mætti hann sjálfur mæta þér og sannfæra, því að enginn er betur til þess fallinn, en Drottinn sjálfur. Ég er bara manneskja, en trúi og finn að Drottinn leiðir mig og blessar.
Guð er ekki hægt sanna, eins og svo margt sem að menn telja vera sannleika og fjöldi manna trúa. Margt er sagt í fréttum sem að ekki er endilega satt, engu síður trúa menn því.Trúin er sá kraftur sem að gerir hið ókleifa kleift. Sannleikurinn ER og hann er óumbreytanlegur, en það er maðurinn ekki, né heldur tíminn. Tíminn er einhver stærð í Alheiminum, en Guð ER ÓENDANLEGUR OG EYLÍFUR. Hann ER!
Kraftur Guðs vekur alltaf spurningar og efasemdir, en til að taka við Krafti Guðs og veru, þarf efasemdin að víkja fyrir Trúnni. Engu síður er Trúin gjöf frá Guði til manns sem að hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, sannleikanum og KÆRLEIKANUM. Ef Trúna skortir, þá er til sú bæn, sem að auðmjúklega biður Guð um að gefa Trú, Guð Trú. Guð talaði og það varð. Trú Guðs virkar sem skapandi afl, trú sem að maðurinn eignast frá Guði, virkar þannig líka.
En ef þú eða ég, hver sem er vill fá svar frá Guði og sönnun um hans tilvist, er svarið þetta: "Hver sá sem að auðmýkir sig fyrir Guði og leitar hans af einlægni, mun finna hann!
Ég skil vel að þú spyrjir og svo sannarlega á maður ekki að taka við hverju sem er í hjarta sitt, en Guð er þess vel megnugur að mæta hverjum sem hans leitar, Því Jesús lifir og hann er sá sem sagði/segir; "ÉG ER ! "
Trúmál | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2010 | 10:49
Ég mótmæli tillögum Mannréttindarráðs Reykjavíkur:
Ef þetta hefur forgang hjá Reykjavíkurborg þá verður maður hugsi um forgangsröðun
verkefna þar sem fátækt og aðrar hörmungar dynja yfir íbúa
borgarinnar.
Hvað með Jólasveina innrætinguna, í 13 daga gefa þeir í skóinn fyrir jólin og mismuna börnum eftir efnum og aðstæðum, samt sem áður er talað um þá sem heilagan sannleika fyrir jólin, bæði í skólum og fjölmiðlum, börnin hvött til að fara snemma í háttinn, til að missa ekki af þeim kumpánum. Ég fékk bágt fyrir að ég hef kennt mínum börnum að þeir væru bara skemmtilegt ævintýri, byggt á sögusögnum í gegn um áratugina. Áður aðalega til að hræða börn, en nú til að skemmta og skapa stemmningu. Þegar að börnin mín lýstu sinni skoðun og sögðust ekki trúa á jólasveinanna, þá fékk ég alvarlegar athugasemdir frá foreldrum um að ég væri að skemma jólin. Er ekki jólasveina-trúfrelsi í þessu landi.
Mér finnst mikilvægt að börnin mín sjái að ég sé samkvæm sjálfri mér og ljúgi ekki að þeim gegn minni sannfæringu. Þegar að ég var barn, vissi ég vel að jólasveinarnir væru leiknir af mönnum og mér þótti það í fínu lagi. Ég er ekki að tala um lítil börn, en þegar að börnin fara að spyrja, þá vil ég segja satt.
Fyrir jólin í skólanum er mun meira jólasveinatrúboð, en trúboð um Jesú Krist. Ég hef ekki verið í neinni uppreisn við skólann vegna þessa, engu síður er ég óánægð með að það þyki sjálfsagt að ljúga að börnunum og fullorðnir segi fullum hálsi að þeir trúi á jólasveinanna.
Ég gæti sagt fullum hálsi að ég trúi á Jesú og er að segja satt, það er trú mín, en ég leifi mér að efast um að fullorðið fólk í stórum stíl trúi á Jólasveinana, því ef að fólk gerir það, afhverju þá þessar blekkingar að fara út í búð til að kaupa gjafir í skóinn.
18.10.2010 | 10:06
It doesn´t matter any more - Buddy Holly lag
Hér er meira af upptökum frá því 1983 - 12 strengja gítar og rödd...
Ég er að safna kröftum í að dusta af mér rykinu og gefa út geisladisk, ekki þó með gömlum upptökum, heldur nýjum.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2010 | 21:48
Meiri Tónlist, minna mas
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)